Bogi Ágústsson, formaður Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar, flutti hátíðarerindið á Skálholtshátíð 2019 og kom þá meðal annars inná sögu Stofnunar Sigurbjörns og mikilvægt hlutverk hennar. Bogi hafði daginn áður stýrt umræðum á seminari í Skálholti með dr. Munib Younan, biskupi í Jerúsalem en seminarið hélt Stofnunin í samstarfi við Skálholtsbiskup og Skálholtsstað. Erindi Boga er hér á eftir en meðal annarra ræðumanna voru samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Siguður Ingi Jóhannsson, og sr. Elínborg Sturludóttir, dómkirkjuprestur, og frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Í lok þessarar hátíðardagskrár flutti dr. Munib Younan, biskup í Jerúsalem, blessunarorðin á arabísku.

Erindi Boga Ágústssonar fer hér á eftir:

„Stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs!“

Heiðruðu samkomugestir!

Rétt um áratugur er liðinn frá því að Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar var sett á fót. Stofnunin hefur það hlutverk að vinna að rannsóknum og fræðslu í trúarbragðafræði og guðfræði í þeim tilgangi að auka þekkingu og skilning á trúarbrögðum heimsins og stuðla að sáttargjörð ólíkra trúarviðhorfa, vinna gegn tortryggni og efla skilning og umburðarlyndi. Mikill metnaður réði för er ákvörðun var tekin um Stofnun dr. Sigurbjörns. En efnahagsörðugleikar og samdráttur í starfi kirkjunnar þá komu í veg fyrir að hægt væri að fylgja fram starfi hennar af þeim metnaði sem til var stofnað.

Við sem höfum tekið þátt í starfinu höfum þó efnt til fjölmargra funda og málþinga í samstarfi við aðrar stofnanir og félög á síðasta áratug. Síðustu tvö ár höfum við verið í samstarfi við Hringborð Norðurslóða, Arctic Circle, og séð um málþing í tengslum við ráðstefnu þeirra í Hörpu. Meðal þess sem fjallað hefur verið um á vegum Stofnunar dr. Sigurbjörns má nefna:

Mannréttindi á upplausnartímum
Málþing um fjármálamarkaðinn og hraða nútímans
Nelson Mandela og máttur sáttargjörðar
Staða kristinna í Mið-Austurlöndum

Fyrsta málþingið, „Hlutverk trúar og trúarbragða í sáttargjörð,“ var einmitt hér í Skálholti í samstarfi við Skálholtsstað og Skálholtsbiskup. Við vonum að samstarfið við Skálholtsstað haldi áfram, það var auðvitað gleðiefni þegar sr. Kristján Björnsson var kjörinn vígslubiskup Skálholtsstiftis, en Kristján hefur verið varaformaður stjórnar Stofnunar dr. Sigurbjörns frá stofnun og í raun framkvæmdastjóri. Á fyrsta málþinginu var aðalfyrirlesara dr. Susannah Heschel, prófessor í gyðinglegum fræðum við Dartmouth háskóla í New Hampshire í Bandaríkjunum. Hún fjallaði af djúpri þekkingu og skilningi um samband gyðingdóms og kristni og lýsti meðal annars hryggð vegna óvináttu kristni og gyðingdóms.
„One of the great tragedies of world history is that Christianity and Judaism have been such antagonists.“
„Perhaps we need to be more attentive to our many religious faiths as revealing the beauty of God’s creation,“ sagði Heschel í máli sínu og vitnaði í Jobsbók:
„Hlýð þú á þetta, Job; stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs.“

Ef við lítum á eitt meginhlutverk Stofnunar dr. Sigurbjörns, sem er að vinna að sáttargjörð og gegn tortryggni og efla skilning og umburðarlyndi, mætti ætla að þar væri við ramman reip að draga. Það er verulegt áhyggjuefni hvernig hatursumræða, tortryggni, hræðsla við framandi hluti og fólk hefur aukist á undanförnum árum. Flokkar og stjórnmálamenn sem byggja málflutning sinn á að ala á ótta en ekki von, sundrungu en ekki samstöðu virðast á stundum njóta æ meiri stuðnings. Ættjarðarást breytist í þjóðernishyggju þar sem kynnt er undir andúð á öðrum. Allt framandi er gert tortryggilegt og trúarbrögðum misbeitt, umburðarlyndi og skilningur á trú annarra er gert tortryggilegt, jafnvel þar sem síst skyldi, báðir stóru flokkarnir í Bretlandi eru sakaðir um andúð annars vegar gegn gyðingum og hins vegar gegn múslimum og leiðtogar flokkanna virðast hafa takmarkaðan skilning eða vilja til að berjast gegn slíkum öflum innan flokka sinna.
Rökhyggja og staðreyndir hafa látið undan í umræðu fyrir afbökuðum og röngum málflutningi og skírskotun til tilfinninga og þá er oft höfðað til lægstu hvata, öfundar, hræðslu og græðgi.
Þegar bent er á þá staðreynd að glæpum hafi í raun fækkað og þjóðfélagið víðast á Vesturlöndum sé öruggara en fyrir tveimur eða þremur áratugum en svar lýðskrumarans: „Já en fólki finnst það ekki“.

Lýðskrumarinn hefur ekki áhuga á staðreyndum.

Breskur ráðherra var í umræðu þegar honum var bent á að málflutningur hans stangaðist á við álit þeirra sem best þekktu til sagði einfaldlega: „Ég held að fólk sé orðið leitt á sérfræðingum“.

Lýðskrumarinn hefur ekki áhuga á staðreyndum.

Lýðskrumarar í Bandaríkjunum tala um „alternative facts“, falsstaðreyndir eins og fólk geti valið um hvað sé staðreynd og hvað ekki, tveir plús tveir þurfi ekki endilega að vera fjórir, geti verið það sem hentar málflytjenda.

Veist er með hatursfullum hætti – eða kannski af ísmeygilegri kænsku – að pólitískum andstæðingum, þeim skipað að hypja sig heim eins og þeirra réttur til byggja samfélagið sé minni en þeirra sem eru annarrar skoðunar og með annan litarhátt. Þetta er rasismi og kvenfyrirlitning í senn.

En lýðskrumarinn hefur ekki áhuga á staðreyndum.

Lygi er margtuggin að hætti sem heimurinn kynntist með svo ömurlegum afleiðingum á fyrri hluta síðustu aldar. Lýðskrumarinn hefur ekki áhuga á staðreyndum.

Netið sem átti að verða til að upplýsa fólk sundrar því gjarna í fylkingar sem ræðast ekki við, umræðan verður í hópum þar sem gagnrýni kemst ekki að, öfgaskoðanir og kenningar verða ofan á, þeir sem hafa hæst tala aðrar skoðanir á kaf.

Lýðskrumarinn hefur ekki áhuga á staðreyndum.

Þjóðir og fólk sæta ofsóknum og kúgunum vegna trúar sinnar, kristnir menn einkum í Mið-Austurlöndum, þar sem ýmsir óttast endalok 2000 ára sögu kristni í heimshlutanum. En kristnir eru ofsóttir víðar vegna trúar sinnar, skemmst er að minnast hryðjaverkaárásar á kirkju á Sri-Lanka. Múslimar gjalda einnig trúar sinnar víða um heim og fylkingar þeirra berast á banaspjót líkt og kaþólikkar og mótmælendur í Evrópu fyrr á öldum. Allar trúarhreyfingar hafa á löngum tímum orðið að þola ofsóknir, oftar en ekki vegna vanþekkingar, fordóma og ástæðulausrar tortryggni.

Dr. Mounin Younan, biskup í Jerúsalem, sem predikaði í hátíðarmessu í kirkjunni áðan sagði í fyrirlestri í gær að þegar þorri gyðinga, múslima og kristinna sætu þegjandi og mótmæltu ekki pólitísku ofstæki sem sveipaði sig skikkju trúar leyfðu þeir öfgamönnunum að taka trúarbrögð þeirra í gíslingu.

Ég vitna einnig í orð sem alls óvíst er að bresk-írski stjórnmálamaðurinn og sagnfræðingurinn Edmund Burke hafi nokkru sinni látið sér um munn fara, en eru eignuð honum. Þau túlka sömu hugsun og felst í orðum Younans biskup og sannleikurinn í þeim á við á öllum tímum, ekki síst nú:

All that is necessary for the triumph of evil is that good men do nothing.

Það er skylda okkar allra að berjast gegn óréttlæti, falsmálflutningi og orðræðu sundrungar og haturs.

Verum ekki þau sem gerum ekki neitt, berjumst fyrir sannleika og réttlæti, gegn ójöfnuði, ótta og hatri.

Hér leyfi ég mér að vitna aftur í orð dr. Younans biskups, sem hann flutti í predikun sinni áðan:

„Við erum knúin til að halda áfram að boða guðspjall kærleikans og ekki bara í orði heldur í verki. Auðvitað getur ekkert staðið í vegi fyrir að boðskapur Guðs um róttækan kærleika hans og samfylgd nái að breiðast út. Það er ritað hjá Lúkasi guðspjallamanni í 19. kafla, þegar trúarleg yfirvöld sögðu Jesú að hasta á lærisveina sína sem höfðu hátt, svaraði hann: „Ég segi ykkur, ef þeir þegja munu steinarnir hrópa.“

Younan hélt áfram:

„Þetta felur ekki í sér að við þvingum trú okkar uppá aðra. En það merkir að við höldum áfram að tala hátt og skýrt fyrir réttlæti, friði og kærleika. Kristnu fólki allt frá Jerúsalem til Skálholts hefur verið gefin rödd svo við getum sungið Guði lof og dýrð, ekki aðeins í steyptum byggingum heldur sem lifandi steinar á götu úti og í höllum valdhafanna, til að vinna að rétti flóttafólks, fátækra, sjúkra, nýfæddra, fyrir ókunnugum, kúguðum og hernumdum. Með því játum við saman, með Símoni Pétri: „Þú ert Kristur, sonur hins lifandi Guðs.“

Ég vona að við getum öll tekið heilshugar undir þessi predikunarorð Munib Younan.

Ef til vill er alvarlegasta ógn okkar tíma það sem nú er nefnt hamfarahlýnun, breytingar á veðurfari og loftslagi af völdum mannkyns. Þar er einnig ábyrgð okkar allra að sporna við. Innan kirkjunnar eru margir sem telja það siðferðilega ábyrgð hennar og kristinna að sinna náttúruvernd, umgangast jörðina af virðingu. Mér er afar minnistætt samtal við tvo bandaríska presta og guðfræðinga sem héldu fyrirlestra á Íslandi fyrir nokkrum árum. Þetta voru Rodney Petersen, forstöðumaður Boston Theological Institute sem er net níu bandarískra háskóla sem vinna að friðar- og menningarrannsóknum. Hinn var Raymond Helmick, jesúíti og doktor í bæði guðfræði og heimspeki. Hann er nú látinn og hljóta það að hafa verið fagnaðarfundir er hann hitti skapara sinn. Í máli beggja mátti glöggt greina sannfæringu og trúarhita, en jafnframt auðmýkt, kærleik og umhyggju.

Petersen og Helmick héldu fyrirlestra vegum Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands og í máli þeirra kom fram sú einlæga skoðun að vísindi og trú verði að vinna saman að umhverfisvernd. Trú og andleg vitund skipti miklu máli í umhverfisvernd. Trúin sé stór hluti af sjálfsmynd fólks og móti afstöðu fólks til umgengni við umhverfið. „Trúin ræður því hvernig við lítum á okkur sjálf, umhverfi okkar, allt líf okkar og heiminn,“ sagði Rodney Petersen og bætti við, „Ef við berum ekki virðingu fyrir okkur sjálfum er engin von þess að við berum virðingu fyrir umhverfi okkar.“

Raymond Helmick sagði að mannkyn hefði aldrei horfst áður í augu við þann möguleika að það væri að valda breytingum sem gætu orðið til þess að menn gætu ekki lifað á jörðinni. „Kynslóð mín verður horfin áður en afleiðingar gerða okkar leiða þessar hamfarir yfir okkur, en við erum að tala um réttlæti og við höfum brotið freklega á börnum okkar, barnabörnum og afkomendum þeirra og þess vegna ber ráðamönnum nútímans skylda til að grípa í taumana.“ Helmick sagði einnig að málið ætti að vera hafið yfir flokkadrætti og stjórnmál dagsins, en því miður væru efnahagslegir hagsmunir framleiðenda jarðefnaeldsneytis og annarra það gríðarlegir að svo væri ekki. Jafnvel innan kristinna söfnuða væru átök um hvort maðurinn ætti að varðveita sköpunarverk Guðs og vera gæslumaður og hirðir jarðar eða hvort Guð hefði gert manninn að herra jarðarinnar og honum væri frjálst að ganga á gæði hennar að vild.

En þeir Petersen og Helmick voru ekki aðeins boðberar náttúruverndar og sætta mannkynið við umhverfi sitt, heldur var þeim og er ekki síður kappsmál að koma á réttlátum friði í deilum manna.

Rodney Petersen rifjaði upp í minningargrein um Helmick að hann hefði í einni af síðustu bókum sínum minnt á að ótti æli á undirhyggju, sviksemi, tortryggni, örvæntingu, skömm og siðspillingu og ótti leiddi til græðgi og fátæktar. Einnig einsemdar og einangrunar frá þjóðfélaginu og leiddi hópa til ofbeldis og styrjalda. Í anda þess að koma á réttlátum friði var Helmick óþreytandi að reyna að koma á sátt og friði, á Jamaica, í Mið-Austurlöndum og ekki síst á Norður-Írlandi þar sem kaþólikkar og mótmælendur vógu hver aðra nánast fram á þennan dag.

Við megum aldrei gleyma ábyrgð okkar á heiminum: „Stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs.“

Ég læt þessari heimsósómaupptalningu lokið og við skulum huga að því sem færst hefur til betri vegar.

Það má ekki gleyma því í örvæntingu vegna þess sem bjátar á að heimurinn fer batnandi á svo mörgum sviðum, þrátt fyrir hörmulegar styrjaldir og átök, hefur þeim fækkað ár frá ári frá lokum síðari heimsstyrjaldar sem láta lífið í vopnuðum átökum. Sjúkdómum hefur verið útrýmt – eins og bólusótt – eða mannkyni tekist að ná miklum árangri í baráttunni gegn þeim, þar má nefna HIV og eyðni og malaríu. Hundruð milljóna hefur verið lyft úr örbirgð á síðustu árum. Samkvæmt því sem hinn bjartsýni Hans Rosling segir í bók sinni Factfulness bjó helmingur mannkyns við sára fátækt árið 1966 , en 9 prósent 2017. Meðal ævilengd er nú 72 ár og hefur hækkað ekki síst vegna þess að færri ungbörn deyja, matvælaframleiðsla og uppskera hefur stöðugt aukist á undanförnum árum.

Á stundum virðist okkur lýðskrumsöfl vera í óstöðvandi sigurgöngu og vissulega ráða þau of miklu víða um heim, en gleymum því ekki að það var minnihluti kjósenda í Bandaríkjunum sem réði því hver tók við sem forseti 2017, meira en átta af hverjum tíu kjósendum í Svíþjóð kaus ekki flokk lýðskrumara, fylgi þeirra dvínaði mikið í Danmörku nú í júní, þeir unnu ekki þann sigur sem margir óttuðust í kosningum til Evrópuþingsins í maí.

Í þeim löndum þar sem sótt hefur verið hart að sjálfstæði dómstóla og fjölmiðlafrelsi heft hafa kosningar ekki verið afnumdar og í endurteknum borgarstjórakosningum í Istanbúl beið flokkur forseta Tyrklands ósigur þrátt fyrir að ráða nánast öllum málsmetandi fjölmiðlum landsins. Þá voru í vikunni þrír tyrkneskir blaðamenn sýknaðir en þeir eru í stórum hópi sem stjórnvöld fangelsuðu í aðför að fjölmiðlafrelsi. Fjölmennasta múslimaríki heims, Indónesía er lýðræðisríki og þar var kosið í apríl. Á Indlandi gekk nærri milljarður að kjörborðinu í maí mánuði. Meir en helmingur mannkyns býr í lýðræðisríkjum.

Auðvitað er enn margt að, meiri ógn virðist steðja að því frjálslynda, umburðarlynda og jafnaðarsinnaða stjórnmálakerfi sem ríkt hefur frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar í flestum vestrænum ríkjum, en við megum samt ekki missa sjónar af því góða sem er að gerast.

„Stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs.“

Í málflutningi bandarísku prestanna sem ég vitnaði til áðan var augljóst að þeir teldu vísindi og trú eiga góða samleið og um fjallaði Sigurbjörn Einarsson oftar en einu sinni. Í erindi sem hann flutti á málþingi um heimspeki og trú árið 1987 velti Sigurbjörn fyrir sér stöðu kristinnar trúar í heimi nútímans, veröld vísinda og tækni.

„Lífskennd hins sigrandi manns á tindi tæknilegrar þróunar er tvíbent, að ekki sé meira sagt. Margir taka þá stefnu, sem lýst er í fornri, postullegri greiningu á vonarsnauðu lífsviðhorfi: Etum og drekkum, því á morgun deyjum vér.
En hitt getur líka gerst, að ennþá eldri orð, ævaforn frumspurning leiki á, svo að ekki verði undan vikist: Maður, hvar ertu, hver ertu? Hvers vegna ertu hér? Af hverju ertu eins og þú ert? Hvers vegna svona mikill í draumum þínum, hugboði, handaverkum og hamingju, þegar vel er, hvers vegna svona veikur og slysinn, svona glámskyggn og vanmegna gagnvart óræðum öflum í fari þínu og gerð? Hverju getur þú treyst? Er þrátt fyrir allt eitthvað til, sem getur haldið uppi von þinni og veitt þér öryggi, fótfestu á hverju sem gengur? Er þrátt fyrir allt eitthvert vit í því, að þú ert til. Hefur líf þitt tilgang eða markmið, sem þú getur sveigt vilja þinn til móts við?
(Sigurbjörn Einarsson, Sókn og vörn, Skálholtsútgáfan 2002, bls. 104.)

Skálholt var dr. Sigurbirni afar kær staður. Tengdasonur hans, Bernharður Guðmundsson, skrifaði í minningu um hann: „Hann dreymdi um endurreisn Skálholts. Sem unglingur var hann sumarlangt hjá föður sínum sem bjó að Iðu í Biskupstungum og þar blasti við niðurlæging Skálholtsstaðar. Sem uppkominn maður tók hann til hendinni, stofnaði Skálholtsfélagið sem kom uppbyggingunni af stað….“
Það er sannarlega ánægjulegt að fá að ræða við ykkur hér í Skálholti, hinu forna biskupssetri og miðstöð menningar og lærdóms á Íslandi um margra alda skeið.
Skálholt var fræðasetur allt til þess að aðsetur biskups var flutt til Reykjavíkur. Undir lok átjándu aldar skrifaði síðasti biskupinn sem sat hér, Hannes Finnsson, eitthvert merkasta sagnfræðiverk liðinna alda, Mannfækkun af hallærum. Hannes var líklega menntaðastur Íslendinga sinnar aldar og þó að nafn rits hans hljómi ekki uppörvandi var hann bjartsýnn á framtíð Íslands. Hann skrifaði: „Ísland fær tíðum hallæri, en ekkert land í Norður-álfunni er svo fljótt að fjölga á ný manneskjum og bústofni sem það, og er því ei óbyggjandi.“
Það voru Móðuharðindin, sem urðu Hannesi tilefni til að skrifa rit sitt. Eldgos, landskjálftar og harðindi höfðu leikið landið og Íslendinga grátt. Meginþorri bústofnsins féll og sömuleiðis nær fimmti hluti þjóðarinnar. Bjartsýni Hannesar á framtíð landsins mitt í mestu ógnum sem riðið hafa yfir Ísland var reist á rannsóknum hans og þekkingu á sögu landsins og var á rökum reist. Hannes hefði sannarlega orðið glaður gæti hann litið Skálholt á þessum fagra og sólríka sumardegi og séð staðfestingu þess að bjartsýni hans var á rökum reist.
Látum þá bjartsýni verða okkur nútímafólki til fyrirmyndar. Það gildir ekki bara á Íslandi heldur um heim allan.
Ég lýk orðum mínum í anda þessu tveggja merku biskupa, með bjartsýni Hannesar og umburðarlyndi og kærleik dr. Sigurbjörns og vitna enn í Jobsbók.

„Stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs.“

Takk.