Stofnskrá fyrir Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar

Samþykkt á Kirkjuþingi 2008 með breytingum á Kirkjuþingi 2011

Inngangur

1. gr.

Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar er í eigu Þjóðkirkjunnar.

2. gr.

Hún er stofnuð í samstarfi við Guðfræðistofnun Háskóla Íslands. Stofnunin skal stefna að samvinnu við erlendar guðfræðistofnanir, erlenda og innlenda háskóla, rannsóknarstofnanir í trúarbragðafræðum, aðrar kirkjudeildir og Samráðsvettvang trúarbragða.

Hlutverk

3. gr.

Hlutverk Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar er að vinna að rannsóknum og fræðslu í trúarbragðafræði og guðfræði í þeim tilgangi að auka þekkingu og skilning á trúarbrögðum heimsins og stuðla að sáttargjörð ólíkra trúarviðhorfa, vinna gegn tortryggni og efla skilning og umburðarlyndi.

4. gr.

Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar vinnur að fræðslu með ráðstefnuhaldi, námskeiðum og rannsóknum.

Stjórn og skipan

5. gr.

Kirkjuráð skipar fimm menn í stjórn stofnunarinnar til fjögurra ára. Þar af tilnefnir biskup Íslands formann og varaformann og Guðfræðistofnun Háskóla Íslands einn stjórnarmann.

6. gr.

Í samráði við biskup Íslands er stjórninni heimilt að skipa allt að fimm manna fagráð til eins árs í senn, sem er stjórn og forstöðumanni til ráðuneytis. Leita má tilnefninga til fagaðila, stofnana og samtaka er starfa á sviði stofnunarinnar.

7. gr.

Biskup Íslands skipar forstöðumann Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar í samráði við stjórn og telst hann vera sérþjónustuprestur. Hann skal vera viðurkenndur sérfræðingur á sviði trúarbragðafræði eða guðfræði. Forstöðumaður annast daglegan rekstur stofnunarinnar samkvæmt ákvörðun stjórnar og ákvæðum í erindisbréfi sem biskup Íslands setur honum.

8. gr.

Rekstrarfé stofnunarinnar er árlegt framlag úr Kirkjumálasjóði, styrkir og tekjur af starf¬semi.

9. gr.

Stjórn stofnunarinnar ber ábyrgð á fjármálum hennar gagnvart Kirkjuráði og skilar ráðinu endurskoðuðum ársreikningum til staðfestingar. Stjórn og framkvæmdastjóri skila ársskýrslu, auk rekstrar- og fjárhagsáætlunar fyrir komandi ár, til umfjöllunar og samþykktar í Kirkjuráði.

10. gr.

Stofnskrá þessa skal endurskoða á Kirkjuþingi á fjögurra ára fresti.

11. gr.

Stofnskrá þessi er sett með heimild í 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 og tekur gildi þegar í stað.

Viðauki:

Stjórnin skal leita samninga við Háskóla Íslands þess efnis að forstöðumaður geti gegnt akademísku gestastarfi við Háskóla Íslands, sbr. verklagsreglur um akademísk gestastörf við H.Í, samanber samþykkt háskólaráðs 7. desember 2006 og 13. gr. reglna fyrir H.Í. nr. 485/2000.

Ákvæði til bráðabirgða:

Kirkjuráði er heimilt að ákveða frestum á ákvæðum 7., 8. og 9. gr. og er kostnaður af starfsemi stofnunarinnar þá greiddur samkvæmt fjárhagsáætlun Kirkjumálasjóðs sem viðfang í rekstri Biskupsstofu. Meðan þessu ákvæði er beitt skal stjórn Stofnunarinnar skila ársskýrslu og stars- og fjárhagsáætlun til kirkjuráðs ár hvert.

Sett inn 140116 KB