Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar stendur fyrir málþingi á Skálholtshátíð 2021 um Sigurbjörn Einarsson til að minnast þess að 110 ár eru liðin frá fæðingu hans. Málþingið ber yfirskriftina „Ljós yfir land“ eftir hirðisbréfi hans. Það verður haldið laugardaginn 17. júlí kl. 10 og lýkur með hádegisverði í Skálholtsskóla.

Dr. Sigurbjörn Einarsson fæddist 30. júní 1911 á Efri Steinsmýri í Meðallandi, Vestur Skaftafellssýslu. Foreldrar hans voru Magnús Kristinn Einar Sigurfinnsson, bóndi á Efri –Steinsmýri í Meðallandi, og Gíslrún Sigurbergsdóttir, húsfreyja.

Sig­ur­björn lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík árið 1931 og nam al­menn trú­ar­bragðavís­indi, klass­ísk forn­fræði og sögu við Upp­sala­há­skóla. Hann lauk þaðan prófi í grísku, forn­fræðum og sögu árið 1936 og hlaut cand. fil. gráðu frá heim­speki­deild Stokk­hólms­háskóla árið 1937. Kandí­dats­prófi í guðfræði lauk hann frá Há­skóla Íslands árið eft­ir. Sig­ur­björn stundaði fram­halds­nám í nýja-testa­ment­is­fræðum við Upp­sala­há­skóla 1939, í trú­fræði við Há­skól­ann í Cambridge sum­arið 1945 og fram­halds­nám vet­ur­inn 1947-48, meðal ann­ars í Basel.

Séra Sig­ur­björn Ein­ars­son var sett­ur sókn­ar­prest­ur í Breiðbólstaðarprestakalli á Skóg­ar­strönd frá 1. sept. 1938 og vígður í sept­em­ber sama ár. Hon­um var veitt Hall­grím­sprestakall í janú­ar 1941 og þjónaði þar til 1944 þegar hann var skipaður dós­ent í guðfræði við Há­skóla Íslands þar sem hann hafði verið sett­ur kenn­ari. Hann var skipaður pró­fess­or í guðfræði 1949 og gegndi því starfi til 1959 er hann var vígður bisk­up Íslands. Hann þjónaði sem bisk­up Íslands til árs­ins 1981.

Er Sig­ur­björn lét af embætti bisk­ups Íslands sinnti hann marg­vís­leg­um verk­efn­um, kennslu og ritstörf­um. Hann var meðal ann­ars leiðbein­andi á kyrrðar­dög­um í Skál­holti frá upp­hafi þeirra og síðast nú í janú­ar 2008. Sig­ur­björn Ein­ars­son var einn af­kasta­mesti pre­dik­ari sinn­ar samtíðar og sinnti þeirri köll­un sinni til hinstu stund­ar.

Sig­ur­björn Ein­ars­son gegndi fjöl­mörg­um fé­lags-og trúnaðar­störf­um. Hann var meðal ann­ars formaður bóka­gerðar­inn­ar Lilju frá stofn­un 1943 og til 1959, formaður Þjóðvarn­ar­fé­lags Íslend­inga 1946 – 50, formaður Skál­holts­fé­lag­ins frá stofn­un þess 1949. Hann sat í stjórn Hins ís­lenska Biblíu­fé­lags frá 1948 og var for­seti þess 1959 – 81, for­seti Kirkjuráðs og Kirkjuþings 1959-81 og sat í stjórn Nordiska Ek­u­meniska Institu­tet 1959 – 81. Sig­ur­björn var formaður sálma­bók­ar­nefnd­ar 1962-72, formaður þýðing­ar­nefnd­ar Nýja testa­ment­is­ins 1962-81 og sat í nefnd á veg­um Lút­erska heims­sam­bands­ins um trú­ariðkun og trú­ar­líf 1964-68. Hann var formaður List­vina­fé­lags Hall­gríms­kirkju 1982-87 og Skóla­nefnd­ar Skál­holts­skóla 1972-81.

Sig­ur­björn Ein­ars­son var kjör­inn heiðurs­doktor í guðfræði við Há­skóla Íslands 1961 og Há­skól­ann í Winnipeg 1975. Hann var heiðurs­fé­lagi Presta­fé­lags Íslands 1978, Fé­lags ís­lenskra rit­höf­unda 1981, Hins ís­lenska Biblíu­fé­lags 1982 og Presta­fé­lags Suður­lands 1987.

Sig­ur­björn bisk­up var af­kasta­mik­ill á ritvell­in­um, bæði á sviði fræðibóka, þýðinga, trú­ar­rita og sálma. Af fjöl­mörg­um rit­um hans má nefna Trú­ar­brögð mann­kyns, Op­in­ber­un Jó­hann­es­ar – skýr­ing­ar, ævi­sögu Al­berts Schweitzer og kennslu­rit um trú­ar­bragðasögu og trú­ar­lífs­sál­fræði. Hann gaf út fjölda bóka með grein­um, pre­dik­un­um og hug­vekj­um og má þar nefna bæk­urn­ar Meðan þín náð, Helg­ar og hátíðir, Coram Deo, Haust­dreif­ar, Kon­ur og Krist­ur, Sárið og perl­an og Orð kross­ins við alda­hvörf. Hann samdi og þýddi fjölda sálma í Sálma­bók kirkj­unn­ar.

Sig­ur­björn kvænt­ist árið 1933 Magneu Þor­kels­dótt­ur. Hún lést 10. apríl 2006. Börn þeirra eru: Gíslrún, kenn­ari, Rann­veig, hjúkr­un­ar­fræðing­ur, Þorkell, tón­skáld, d. 2013, Árni Berg­ur, sókn­ar­prest­ur, d. 2005, Ein­ar, pró­fess­or við HÍ, d. 2019, Karl, bisk­up, Björn, sókn­ar­prest­ur í Dan­mörku, d. 2003, Gunn­ar, hag­fræðing­ur, bú­sett­ur í Svíþjóð.